Pussy Riot meðlimur fluttur á spítala

María Aljokhína.
María Aljokhína. NATALIA KOLESNIKOVA

María Aljokhína, meðlimur rússnesku pönkhljómsveitarinnar Pussy Riot, var færð undir læknishendur í dag en hún hefur verið í hungurverkfalli undanfarna viku.

Voina-listahópurinn tilkynnti um þetta á Twitter í dag en hópurinn er nátengdur hljómsveitinni. Þar sagði að Aljokhína hefði verið færð til rannsóknar á sjúkrahús fangabúðanna þar sem hún afplánar tveggja ára fangelsisvist en klukkutíma síðar tísti hópurinn að Aljokhína hefði verið útskrifuð og henni leyft að hitta stuðningsmenn sína.

Lögmaður Aljokhína og Nadezhda Tolokonníkovu, meðlimur í Pussy Riot sem var dæmd til vistar í öðrum fangabúðum, segja að fangelsisyfirvöld hafi fylgst grannt með Aljokhína síðan hún hóf föstuna á miðvikudaginn í síðustu viku. Í dag hafi hún verið látin undirgangast mjög ítarlega rannsókn.

Aljokhína fór í hungurverkfall til að mótmæla því að yfirvöld leyfðu henni ekki að vera viðstödd þegar fjalla átti um beiðni hennar um reynslulausn fyrir héraðsdómi. 

Aljokhína var dæmd fyrir óspektir í kirkju í Moskvu en þar voru hún og aðrir meðlimir Pussy Riot að mótmæla forsetanum Vladímír Pútín. Tolokonníkova var einnig dæmd til vistar í fangabúðum en aftur á móti fyrirskipaði áfrýjunardómstóll að Jekaterína Samútsevítsj skyldi látin laus.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert