Hvatti menn til að áreita konur

Frá Sádi-Arabíu þar sem konum var nýverið leyft að starfa …
Frá Sádi-Arabíu þar sem konum var nýverið leyft að starfa í búðum. FAYEZ NURELDINE

Sádi-Arabar á samfélagsmiðlum eru margir hverjir afar ósáttir við íslamska rithöfundinn og klerkinn Abdullah Mohamed al-Dawood sem hvatti fólk á Twitter-síðu sinni til að áreita kvenkyns afgreiðslufólk. Tæplega 100 þúsund manns fylgja al-Dawood á síðunni.

Hann hvatti til áreitninnar í því skyni að letja konur í landinu frá því að halda út á vinnumarkaðinn. Fyrir skömmu var sádiarabískum konum leyft að vinna í búðum en það mætti mikilli andstöðu íhaldsmanna í landinu. Fjöldi Sádi-Araba á Twitter brugðust hart við færslu al-Dawood og spurðu hví hann þættist mega hindra konur í að vinna. Aðrir sökuðu hann um að hvetja til kynferðisofbeldis í garð kvenna.

al-Dawood útskýrði að það að leyfa konum að vinna úti jafngilti mansali - þær væru nýttar til þess að laða að viðskiptavini. Fjöldi kvenna gaf lítið fyrir þessa útskýringu. Konur í Sádi-Arabíu hafa fengið að starfa sem prófessorar, kennarar eða læknar en þá aðeins á vinnustöðum með engum karlmönnum.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem al-Dawood lætur umdeild ummæli falla. Hann hefur áður stungið upp á því að börn verði látin bera blæjur til að koma í veg fyrir að þau verði fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Bent hefur verið á tvískinnungsháttinn sem felist í því að al-Dawood noti Twitter til að koma skoðunum sínum á framfæri, á sama tíma og fjöldi háttsettra klerka hafi gagnrýnt síðuna fyrir að spilla og villa um fyrir ungu fólki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert