Kvenréttindasamtökin Femen vöktu enn á ný athygli á málstað sínum þegar tveir meðlimir í samtökunum ruddust fram í þættinum Germans next top model. Að venju voru þær berbrjósta og yfir barm þeirra var ritað „Heidi horror picture show,“ eða Hryllingsmyndaþáttur Heidi.
Vildu þær með þessu mótmæla hlutgervingu kvenna í þættinum og vísuðu til Heidi Klum sem er einn framleiðanda þáttanna. Var um að ræða lokaþátt í þáttaröðinni og var hann í beinni útsendingu. Öryggisverðir yfirbuguðu konurnar fljótlega og voru þær aðeins augnablik í mynd.
Á undanförnum mánuðum hafa meðlimir Femen ítrekað ruðst fram á ólíkum viðburðum til þess að vekja athygli á málstað sínum. Í apríl ruddust tvær berbrjósta konur framfyrir myndavélar þegar Vladimir Pútín Rússlandsforseti, og Angela Merkel kanslari Þýskalands komu fram á fréttamannafundi.
Fyrr í vikunni voru þrír meðlimir í Femen samtökunum handteknir í Túnis eftir að konurnar flettu klæðum til að mótmæla handtöku þarlendrar konu.
Der Spiegel segir frá.