Þjóðverjum fækkað um 1,5 milljónir manna

Íbúum í Þýskalandi hefur fækkað um 1,5 milljónir frá árinu 1990 samkvæmt nýjum tölum frá hagstofu landsins og búa nú 80,2 milljónir manna í landinu. Samhliða sýna tölur að þjóðin er að eldast og fæðingatíðni er lág.

Þetta er í fyrsta skipti sem farið hefur verið í svo umfangsmikla upplýsingaöflun á manntali síðan Austur- og Vestur Þýskaland sameinuðust árið 1990. Nemur fækkunin 1,5%. Samkvæmt tölunum eru 74 milljónir manna með þýskt ríkisfang eða rúm 92% en 6,2 milljónir eru útlendingar eða tæp 8%. Eru um 1,1 milljónum færri útlendingar í landinu en áður var talið. Um 15 milljónir landsmanna eru innflytjendur af fyrstu eða annarri kynslóð.

Fæðingatíðni í Þýskalandi er ein sú lægsta í Evrópu og þrátt fyrir að innflytjendum hafi fjölgað mikið á síðustu árum hefur það ekki nægt til þess að viðhalda fólksfjölgun.

Fleiri þættir voru einnig rannsakaðir. Um 40 milljónir atvinnubærra manna eru með atvinnu en 2,1 milljón manna eru án atvinnu. 46% búa í eigin húsnæði en meira en helmingur býr í leiguhúsnæði.

Þá hafa stjórnmálamenn lýst yfir áhyggjum af því að þjóðin er að eldast. Angela Merkel hefur sagt að helsta verkefni landsmanna sé að snúa við þróun um lága fæðingatíðni. Benti hún á að með sama áframhaldi fækki fólki sem hafi aldur til vinnu um 6  milljónir á vinnumarkaði árið 2030.

Rannsóknin náði til 10% íbúa í Þýskalandi.

The Local segir frá.

Fólk á gangi í Berlín.
Fólk á gangi í Berlín. AFP
Angela Merkel hefur áhyggjur af lágri fæðingatíðni í Þýskalandi.
Angela Merkel hefur áhyggjur af lágri fæðingatíðni í Þýskalandi. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert