Dýraverndunarsinnar fullyrða að um tvöhundruð þúsund lifandi hundum sé smyglað frá Taílandi til Víetnam árlega. Hundarnir enda líf sitt í Víetnam þar sem þeir eru hafðir til matar. Á ferðalaginu er þeim staflað í þröng búr, allt að þúsund hundar eru í hverjum bíl. Alltaf drepast þó nokkrir þar sem þeir kafna vegna þrengsla, þá eru þeir þyrstir og stressaðir. CNN greinir frá.
„Vegna þess að jafn þröngt er á hundunum eins og raun ber vitni, þá bíta þeir hvern annan því þeim líður illa,“ segir Tuan Benedixsen formaður Samtaka um dýravernd í Asíu og situr í nefnd um velferð dýra í Víetnam í Hanoi.
Benedixsen bendir á að sú trú ríkir almennt að stressaðir og hræddir hundar gefi frá sér hormón sem veldur því að kjötið af hundunum verði betra á bragðið. Þá séu dæmi um að hundarnir séu fláðir lifandi.
Talið er að 98% hundanna sem er smyglað séu tamdir, sumir eru jafnvel enn með ólarnar á sér, þegar þeim er rænt.
Dómurinn sem hundasmyglararnir eiga yfir höfði sér er léttvægur.
„Þetta snýst ekki um hvort það sé rétt eða rangt að borða hundakjöt heldur er þetta ólögleg starfsemi þar sem skipulögð glæpastarfsemi veltir fleiri milljónum dollara á ár. Þar sem hundarnir eru fluttir og ef þeir lifa af drepnir á ómannúðlegan hátt,“ segir John Dalley formaður Félags heimilislausra hunda.