Assange fordæmir sýndarréttarhöld yfir Manning

Julian Assange fordæmir meðferð bandarískra yfirvalda á Bradley Manning.
Julian Assange fordæmir meðferð bandarískra yfirvalda á Bradley Manning. AFP

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, fordæmir réttarhöldin yfir bandaríska hermanninum Bradley Manning, en Assange segir að þau séu ekkert annað en sýndarréttarhöld.

Manning hefur verið ákærður fyrir að aðstoða hryðjuverkasamtökin al-Qaeda með því að leka miklu magni af leyniskjölum til Wikileaks.

Assange hefur birt yfirlýsingu á heimasíðu Wikileaks. Hann segir að herréttarhöldin, sem hófust skammt frá Washington í gær, snúist ekki um réttlæti gagnvart hinum 25 ára gamla Manning.

„Þetta er ekki réttlæti; þetta gæti aldrei talist vera réttlæti. Dómurinn var kveðinn upp fyrir löngu,“ segir Assange. 

„Tilgangur þeirra [réttarhaldanna] er ekki að fjalla um spurningar eins og sekt eða sakleysi - eða sannleika eða lygi,“ sagði hann ennfremur.

Assange dvelur enn í sendiráði Ekvador í London þar sem hann leitaði skjóls þegar bresk stjórnvöld hugðust framselja hann til Svíþjóðar þar sem Assange er sakaður um að hafa framið kynferðisbrot.

Hann heldur því fram að ásakanirnar eigi sér pólitískar rætur sem tengist því að Wikileaks hafi birt opinberlega leyniskjöl sem Manning lak upphaflega til síðunnar. Málið þótti hið vandræðalegasta fyrir bandarísk stjórnvöld.

Assange fordæmir að Manning skuli vera misþyrmt með þessum hætti, en hann segir að Manning sé þekktasti pólitíski fangi í nútímasögu Bandaríkjanna.

Verjendur hans hafa haldið því fram að Manning hafi mátt þola illa meðferð frá því hann var handtekinn árið 2010 þegar hann var við skyldustörf í Írak.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert