Vilja bankaleynd í stjórnarskrá

UBS er einn stærsti banki Sviss.
UBS er einn stærsti banki Sviss. AFP

Hópur hægrimanna á svissneska þinginu hóf í dag herferð til þess að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um að verja bankaleynd í landinu. Talsverður þrýstingur hefur verið á þarlenda banka að aflétta leyndinni frá alþjóðasamfélaginu. Talið er að margir auðmenn noti svissneska banka til þess að fela fjármuni sem ellegar yrðu skattlagðir.   

Herferð hægrimanna gengur undir nafninu „já við vernd einkalífs“ og vilja þeir að bankaleynd verði bundin við stjórnarskrárlög í landinu. Stendur nú yfir undirskriftasöfnun en til þess að fá mál í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss þarf undirskrift 100 þúsund manna á 18 mánaða tímabili.   

Málið kom upp í kjölfar þess að svissnesk yfirvöld gerðu samkomulag við bandarísk stjórnvöld í síðustu viku um að bankar gæfu upp nöfn Bandaríkjamanna sem geymdu fé á bankareikningum þar í landi.  

Evrópusambandið hefur einnig leitað eftir svipuðu samkomulagi við svissnesk yfirvöld vegna fjármuna sem talið er að erlendir aðilar geymi í Sviss. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka