Mótmæli héldu áfram í Tyrklandi í morgun þrátt fyrir ákall stjórnvalda um að þeim yrði hætt og afsökunarbeiðni þeirra til mótmælenda sem beittir hefðu verið harðræði. Mótmælin hafa staðið yfir frá því síðastliðinn föstudag.
Fram kemur í frétt AFP að lögregla hafi beitt táragasi og öflugum vatnsbyssum á mótmælendur í nokkrum af stærstu borgum Tyrklands. Þar á meðal Istanbul og höfuðborginni Ankara. Mótmælin í morgun hófust í kjölfar þess að annað stærsta verkalýðsfélag landsins tilkynnti að það ætlaði að taka þátt í þeim en mótmælin hafa beinst gegn ríkisstjórn Recep Tayyip Erdogan forsætisráðherra.
Þúsundir söfnuðust saman á Taksim-torgi í Istanbul þar sem slagorð voru kölluð gegn Erdogan en hann hefur kallað mótmælendur öfgamenn og skemmdarvarga. Aðstoðarforsætisráðherra Tyrklands, Bulent Arinc, reyndi í gær að slá á ólguna með því að biðjast afsökunar á harðri framgöngu lögreglu gegn mómælendum en það útspil virðist hins vegar ekki hafa haft mikil áhrif.