Þrítugur karlmaður var á dögunum sýknaður af morði á vændiskonu þar eð hann hefði aðeins ætlað að endurheimta féð sem hann hefði greitt henni eftir að hún neitaði að þjónusta hann.
Þetta kemur fram í frétt International Business Times.
Á aðfangadagskvöld árið 2009 ætlaði Ezekiel Gilbert, 26 ára gamall Texasbúi, að kaupa sér þjónustu vændiskonunnar Lenoru Ivie Frago, 23, sem hann hafði fundið á auglýsingavefnum Craigslist. Hann greiddi henni 150 dollara fyrir kynlíf sem hún síðan neitaði að veita honum. Hann reyndi að endurheimta féð og endaði með því að skjóta Frago í hálsinn. Hún lamaðist við skotið og lést sjö mánuðum síðar.
Samkvæmt lögum í Texas-fylki er borgurum leyfilegt að beita þvílíku valdi til að endurheimta stolnar eigur þeirra að nóttu til, sem og til að hindra þjóf í að flýja vettvang glæps að nóttu svo fremi sem viðkomandi sjái sér ekki aðra leið færa til að vernda eigur sínar. Á grundvelli þessa var Gilbert sýknaður af kviðdómi, þrátt fyrir rök saksóknara þess efnis að lagaákvæðið væri ætlað löghlýðnum borgurum en ekki þeim sem reyndu að neyða aðra til vændis.