Umfangsmikil heræfing hafin

Hershöfðingjarnir Awni al-Edwan og Robert G. Catalanotti.
Hershöfðingjarnir Awni al-Edwan og Robert G. Catalanotti. KHALIL MAZRAAWI

Umfangsmikil heræfing er hafin í Jórdaníu en samkvæmt þarlendum yfirvöldum taka yfir 8.000 hermenn þátt í æfingunni. Á æfingunni eru einnig eftirlitssveitir frá 19 öðrum ríkjum.

Ráðamenn í Jórdaníu segja heræfinguna ekki tengjast ástandinu í Sýrlandi.

Æfingin hefur hlotið heitið „Eager Lion 2013“ og taka um 4.500 bandarískir hermenn taka þátt í henni auk um 3.000 hermanna úr hersveitum Jórdaníu. Samkvæmt AFP-fréttaveitunni æfa hermenn land-, sjó-, og lofthernað en heræfingin mun standa yfir til 20. júní.

AFP-fréttaveitan hefur eftir Awni el-Edwan hershöfðingja að megináherslan verði á að æfa óhefðbundinn hernað s.s. aðgerðir gegn hryðjuverkamönnum og vopnuðum vígamönnum.  

„Þessar æfingar tengjast á engan hátt ástandinu í Sýrlandi,“ sagði el-Edwan á blaðamannafundi fyrr í dag en auk hersveita frá Jórdaníu mun fjölmennt lið bandarískra hermanna taka þátt í æfingunni. Munu Bandaríkjamenn t.a.m. senda Patriot loftvarnarflaugar á svæðið og F-16 orrustuþotur.

Á blaðamannafundinum var m.a. rædd sú hugmynd að Patriot loftvarnarkerfið verið áfram í landinu að æfingu lokinni. Þá er heldur ekki útilokað að bandarísku F-16 orrustuþoturnar verði einnig eftir í Jórdaníu.

Um þetta hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun.

Æfingarnar fara fram í mið- og suðurhluta Jórdaníu en ekki er vitað hversu margar bandarískar orrustuþotur verða sendar á svæðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka