Verstu flóð í rúm 10 ár

Myndirnar eru teknar í þýsku borginni Magdeburg.
Myndirnar eru teknar í þýsku borginni Magdeburg. AFP

Mörg þúsund björgunarsveitarmenn, hermenn og sjálfboðaliðar í Þýskalandi berjast nú við verstu flóð sem hafa herjað á Mið-Evrópu í rúman áratug. Mikill viðbúnaður er í Búdapest, höfuðborg Ungverjalands, vegna mikilla vatnavaxta í Dóná.

Búið er að rýma stór svæði í Þýskalandi vegna flóðanna og hefur einn þýskur þingmaður látið hafa eftir sér að hér sé um að ræða hamfarir á landsvísu.

Íbúar í Búdapest búa sig nú undir það að borgin fari undir vatn. Víða hafa menn unnið hörðum höndum að því að styrkja flóðavarnir, m.a. með því að koma fyrir sandpokum. Búist er við að vatnshæðin í Dóná muni ná sögulegum hæðum.

Í Þýskalandi beina menn helst sjónum sínum að borginni Magdeburg í austurhluta landsins. Brúnt vatn flæðir yfir stórt svæði umhverfis borgina. Mikið úrhelli hefur verið í Tékklandi og hefur regnið skolast með Saxelfi til Þýskalands.

Vatnshæðin í Magdeburg náði 7,45 metra hæð í morgun, sem er rúmlega tveimur metrum yfir meðallag. Yfirvöld segja að ástandið sé verra en það var þegar mikil flóð ollu usla á svæðinu árið 2002.

Stífla brast suður af Magdeburg í dag þrátt fyrir að lagt hafi verið í umfangsmiklar aðgerðir til að styrkja hana.

AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert