Rjúfa þurfti útsendingu þáttarins Sunday Politics hjá BBC í morgun þegar viðmælandi missti sig gjörsamlega í beinni útsendingu.
Botninn var sleginn í þáttinn þegar Alex Jones, útvarpsmaður og samsæriskenningasmiður, reiddist og hrópaði meðal annars að frelsi yrði ekki stöðvað.
Tilefni viðtalsins var fundur hins svokallaða Bilderberg-hóps, en það er leynilegur félagsskapur sem samanstendur af valdamiklum mönnum víða að úr heiminum og má þar meðal annars finna stjórnmálamenn, fræðimenn og þekkta menn úr viðskiptalífinu. Í viðtalinu hélt Jones því fram að BBC hefði undir höndum gögn um að Bilderberg-hópurinn hefði átt þátt í að stofna Evrópusambandið, en það hefði allt saman verið áætlun í anda nasistastefnunnar um að taka lönd efnahagslega yfir.
Þá hélt hann því einnig fram að verið væri að koma krabbameinsveiru fyrir í fólki með bólusetningum.
Þáttastjórnandinn hafði lúmskt gaman af þessu en sagði að lokum að þetta væri versti viðmælandi sem hann hefði á ferlinum fengið í viðtal auk þess sem hann batt enda á viðtalið með þessum sjaldheyrðu lokaorðum: „Kæru áhorfendur þið eruð að horfa á Sunday politics og við erum með hálfvita í þættinum í dag.“
Hér að neðan má sjá viðtalið.