Elsti karlmaður allra tíma er látinn, 116 ára að aldri. Japaninn Jiroemon Kimura fæddist árið 1897 og lést á sjúkrahúsi í morgun. Dánarorsök er sögð elli.
Um síðustu helgi lést kínversk kona sem sögð var vera 127 ára. Það hefur þó aldrei verið staðfest af alþjóðlegum stofnunum.
Kimura sem var frá bænum Kyotango var fluttur á sjúkrahús í byrjun maí með lungnabólgu. Fyrir nokkrum dögum versnaði ástand hans til muna.
Heimsmetabók Guinness staðfesti það í desember í fyrra að Kimura væri elsti þálifandi maðurinn en þá hafði 115 ára bandarísk kona látist.
Í þeim mánuði sló Kimura einnig annað met er staðfest var að hann var elsti karl allra tíma eða 115 ára og 253 daga gamall.
Hann var hins vegar nokkuð frá því að slá aldursmet elstu konu allra tíma en sú var hin franska Jeanne Calment, sem lést árið 1997, 122 ára. Enginn annar jarðarbúi hefur náð slíkum aldri svo vitað sé.
Kimura fæddist sama ár og flugkappinn mikli Amelia Earhart. Hann varð 116 ára í apríl og fékk þá m.a. kveðju frá forsætisráðherranum Shinzo Abe.
Kimura átti sjö börn, 14 barnabörn, 25 barnabarnabörn og 15 barnabarnabarnabörn. Hann vann hjá póstinum í um 40 ár. Hann hóf svo búskap og stundaði hann þar til hann varð 90 ára.
Frétt mbl.is: Lést 127 ára að aldri