Evrópuþingmenn vilja Bandaríki Evrópu

Evrópuþingið í Brussel.
Evrópuþingið í Brussel. AFP

Meirihluti þingmanna á Evrópuþinginu er þeirrar skoðunar að Evrópusambandið ætti að stefna að því að verða að einu ríki eins og Bandaríkjum Evrópu. Þetta kemur fram í niðurstöðum skoðanakönnunar sem birtar voru í dag en könnunin var gerð af breska fyrirtækinu ComRes.

Samkvæmt niðurstöðunum eru 53% Evrópuþingmanna sammála því að Evrópusambandið eigi að „vinna að því að verða að sameinuðu ríki eins og Bandaríkjum Evrópu.“ 41% þingmannanna eru því hins vegar andvígir. Fram kemur í niðurstöðunum að mikill munur sé á afstöðu þingmanna frá Suður- og Norður-Evrópu. Mikill meirihluti í ríkjum sunnar í álfunni vilji eitt ríki en því er öfugt farið í norðurhluta hennar.

Hins vegar er meirihluti þingmanna í þremur stærstu þingflokknum á Evrópuþinginu hlynnt því markmiði að Evrópusambandið verði að einu ríki. Stuðningur við það sé sérstaklega mikill á meðal vinstrisinnaðra Evrópuþingmanna samkvæmt heimasíðu ComRes.

Meirihluti þingmanna á Evrópuþinginu er hins vegar ekki sammála því að það væri betra fyrir Evrópusambandið ef Bretland segði skilið við það. Mestur stuðningur er við áframhaldandi veru Breta í sambandinu í Norður-Evrópu en minnstur í sunnanverðri álfunni.

Við gerð skoðanakönnunarinnar voru lagðar spurningar fyrir úrtak 100 Evrópuþingmanna sem vegið var þannig að það endurspeglaði þingið. Könnunin var gerð 15. febrúar til 5. apríl á þessu ári.

Niðurstöður skoðanakönnunarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert