Greiða fyrir varalitinn með kynlífi

Ungar konur yfirgefa miðstöð UNICEF í Úkraínu.
Ungar konur yfirgefa miðstöð UNICEF í Úkraínu. AFP

Sasha, 17 ára, felur andlit sitt undir skyggni hafnarboltahúfunnar á meðan hún rifjar upp hvernig fátækt og skortur á mat og fötum í heimavistarskólanum hennar hafi orðið til þess að hún leiddist út í vændi fyrir þremur árum. Hún er ein margra kvenna sem á unga aldri fóru að stunda vændi í úkraínska bænum Mykolayiv. Áður var þar blómlegt atvinnulíf og stór skipasmíðastöð. Nú ríkir þar fátækt.

En nú hefur vonarneisti kviknað meðal ungu kvennanna sem vilja komast út úr vændi og fara að lifa hversdagslegu lífi. UNICEF hefur opnað þar miðstöðvar þar sem stúlkurnar fá skjól, ráðgjöf og menntun. 

„Móðir mín var einstæð og fór til Rússlands er ég var tveggja ára. Hún fór og kom aldrei aftur,“ segir Sasha.

Amma hennar tók við uppeldi Söshu og stjúpsystur hennar en hún réð ekki við álagið. Barnaverndaryfirvöld fluttu því stúlkurnar á munaðarleysingahæli og er Sasha var sex ára var hún sett í heimavistarskóla.

Sasha segir að hún hafi oft strokið úr heimavistarskólanum. Er hún komst á unglingsaldur hóf hún að stunda vændi.

„Við þurftum peninga. Við vildum föt og mat því vorum oft vannærð. Aðrir áttu falleg föt en við gátum ekkert keypt.“

Áhættan við vændið er augljós. Dánartíðni af völdum HIV í aldurshópnum 15-24 ára er nær hvergi jafnhá í Úkraínu og í bænum Mykolayiv.

 Segjast ekki stunda vændi

 Olena Sakovych, sérfræðingur hjá UNICEF í Úkraínu, segir að ungt, fátækt fólk sé líklegra til að stunda óvarið kynlíf og því líklegra til að fá kynsjúkdóma, m.a. smitast af HIV-veirunni.

Sasha segir að sjálfboðaliði hjá UNICEF hafi eitt sinn heimsótt heimavistarskólann og sagt stúlkunum frá möguleikum þeirra til betra lífs - án vændis. Það var til þess að hún snéri sér að einni miðstöð UNICEF.

„Ég kunni vel við mig þar, fólkið er indælt og sagði okkur frá möguleikunum og hvernig við gætum losnað út úr þessum aðstæðum,“ segir Sasha.

En margar ungu kvennanna eru ekki tilbúnar að segjast hafa verið í vændi. Starfsfólk miðstöðvanna segir að margar séu þær í afneitun. 

„Stúlkurnar kalla ekki það sem þær gerðu vændi,“ segir Natalia Babenko, verkefnastjóri miðstöðvanna. Þær segja að karlar hafi keypt handa þeim varalit og sokkabuxur eða farið með þær í bíó, gegn kynlífi.

Allar stúlkurnar hafa átt erfiða æsku og hafa litla ef nokkra kynfræðslu fengið. „Þegar þær eru fjórtán ára hafa þær sofið hjá mörgum.“

Verður að lækna sálina

 Babenko segir að í miðstöðvum UNICEF sé lögð áhersla á forvarnir og að veita stúlkunum heilbrigðisþjónustu. Stúlkurnar geta fengið rannsókn á því hvort þær séu með kynsjúkdóm og aðra sjúkdóma. Oft fá þær svo einnig fræðslu, oft í fjörlegum kennslustundum. „Það er ekki hægt að lækna líkamann nema að lækna sálina líka,“ segir Babenko.

Stúlkurnar eru hvattar til að koma með vinkonur sínar í miðstöðvarnar og þá fá þær einnig leiðsögn í því að segja öðrum sögu sína.

Verkefnið hófst fyrir fjórum árum og í dag eru skjólstæðingar miðstöðvanna um 300-400 stúlkur.

„Núna er ég námsmaður í menntaskóla, ég bý á heimavist,“ segir Sasha sem dreymir um að verða tónlistarmaður eða leikstjóri.

Hún segist nú þrá öryggi í lífi sínu. „Ég kynntist strák fyrir tveimur og hálfu ári. Hvorugt okkar er með kynsjúkdóm. Vonandi giftumst við einhvern daginn.“

Talið er að um 15 þúsund stúlkur undir lögaldri séu í vændi í Úkraínu. Margar þeirra stunda óvarið kynlíf. Það hlutfall fer þó lækkandi í kjölfar aukinnar fræðslu.

Sasha var 14 ára er hún leiddist út í vændi. …
Sasha var 14 ára er hún leiddist út í vændi. Hún er 17 ára í dag og vonast eftir betra lífi. AFP
Starfsmaður UNICEF í Úkraínu faðmar unga stúlku sem stundar vændi …
Starfsmaður UNICEF í Úkraínu faðmar unga stúlku sem stundar vændi á götunni. AFP
Vændiskonur í Úkraínu.
Vændiskonur í Úkraínu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert