Um 40% þeirra tveggja milljóna sem starfa við erfiðar aðstæður í námuiðnaði Lýðveldisins Kongó eru börn, allt niður í 10 ára gömul, samkvæmt Alþjóðabankanum. Í námunum eru grafin upp steinefni sem notuð eru í rafbúnaði s.s. snjallsímum og þotuhreyflum, og eftirspurnin er gríðarleg um allan heim.
Í námuhéruðunum eru fáir sem engir skólar og þeim sem þó hafa verið byggðir er illa haldið við. Fjölmörg börn fara aldrei í skóla eða hætta námi til þess að strita í námunum og frjáls félagasamtök í Lýðveldinu Kongó berjast nú fyrir breytingum.
„Þetta er skelfilegt ástand sem þarfnast greininga og lausna. Börn eiga ekki að vinna í námum, þau ættu að vera í skóla,“ segir Janvier Muraini hjá samtökum sem beita sér fyrir bættum hag dreifbýlisfólks í Lýðveldinu Kongó.
Sáralítið er fjárfest í innviðum menntakerfisins í námuhéruðum Kongó og hafa margir kennarar hrakist frá störfum. „Lausnin er sú að byggja fleiri skóla og hækka laun kennara þannig að börnin hætti í námunum og hljóti menntun,“ segir Muraini.
Samkvæmt lögum í Lýðveldinu Kongó er óheimilt að ráða börn til starfa í námum, en þeim lögum er ekki fylgt og virðist víðfeðm afneitun ríkja gagnvart ástandinu. Talsmaður einnar námunnar fullyrti við blaðamann AFP að hann gæti heimsótt námuna og séð það sjálfur að þar væru engin börn að störfum. Myndirnar sýna hins vegar að raunveruleikinn er allt annar.
Verkefni barnanna er að skilja steinefni eins og coltun frá jarðveginum, grjóti, sandi og drullu. Aðferðirnar eru frumstæðar og vinnuaðstæður slæmar. Talsmaður barnaverndarsamtakanna Save the Children segir þetta geta haft alvarlegar langtímaafleiðingar fyrir þau.
„Börn sem slíta sér út við hættulegar aðstæður eru líkleg til að þróa með sér alvarlegan heilsubrest, eins og astma og öndunarerfiðleika. Sú staðreynd að þau búa fæst við gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu eykur líkurnar enn frekar.“