Telja ekkert óeðlilegt við heiðursmorð

Trúarbrögð skipta ekki máli þegar kemur að viðhorfum ungmenna til …
Trúarbrögð skipta ekki máli þegar kemur að viðhorfum ungmenna til heiðursmorða AFP

Ungmenni í Jórdaníu telja mörg hver að það sé ekkert óeðlilegt við svo kölluð heiðursmorð en í flestum tilvikum eru það ungar konur sem eru myrtar af fjölskyldum sínum þar sem þær eru álitnar ógna heiðri fjölskyldunnar. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem unnin var við Cambridge háskóla.

Rannsóknin var unnin af afbrotafræðistofnun skólans en niðurstaða hennar er sú að tæplega helmingur drengja og ein af hverjum fimm stúlkum sem rætt var við í höfuðborg Jórdaníu, Amman, töldu réttlætanlegt að myrða dóttur, systur eða eiginkonu ef viðkomandi hafi ógnað heiðri fjölskyldunnar.

Rannsakendur ræddu við yfir 850 námsmenn í Amman og voru það einkum unglingspiltar sem komu frá heimilum þar sem menntunarstigið er lágt sem studdu heiðursmorð, samkvæmt því sem fram kemur í tímaritinu Aggressive Behavior.

Þar kemur fram að það sé athyglisvert að rannsóknin sýni að þetta viðhorf tengist ekki trú viðkomandi á neinn hátt. Það er ekki sé marktækur munur á viðhorfi ungmennanna eftir trúarbrögðum.

Á milli 15 og 20 konur eru myrtar á hverju ári í Jórdaníu vegna heiðurs fjölskyldunnar þrátt fyrir að stjórnvöld hafi reynt að koma í veg fyrir slíka glæpi með hörðum viðurlögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert