Snowden sagður ætla til Venesúela

AFP

Edward Snowden er á leið til Caracas höfuðborgar Venesúela samkvæmt rússneskum fjölmiðlum. Hann kemur til Moskvu höfuðborgar Rússlands klukkan 13:15 að íslenskum tíma frá Hong Kong þar sem hann hefur dvalið að undanförnu eftir að hafa lekið í fjölmiðla upplýsingum um víðtækt eftirlit Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA) og breskra leyniþjónustostofnana með síma- og netnotkun á heimsvísu.

Fram kemur í frétt AFP að Snowden eigi pantað flug á morgun til Havana höfuðborgar Kúbu og þaðan áfram flug til Caracas sama dag. Þetta komi fram í rússneskum fjölmiðlum sem byggi fréttir sínar á heimildarmönnum hjá rússneska flugfélaginu Aeroflot sem Snowden ferðast með til Moskvu. Haft er eftir lögregluyfirvöldum á alþjóðaflugvellinum í Moskvu þar sem flugvél Snowdens lendir að þau hafi ekki fengið fyrirskipanir um að handtaka hann. Talsmaður Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, sagði í morgun að rússnesk stjórnvöld hafi ekki vitað af ferðalagi Snowdens til Moskvu fyrr en fjölmiðlar greindu frá því.

Uppljóstrunarvefurinn Wikileaks segir á Twitter-síðu sinni í morgun að fulltrúar hans hafi aðstoðað Snowden við að fá hæli í „lýðræðislegu ríki“ og að lögfræðilegir ráðgjafar á hans vegum fylgi honum á ferð hans til Moskvu. Fram kemur í frétt AFP að heimildir frá Aeroflot hermi að Sarah Harrison, starfsmaður Wikileaks, sé með Snowden í för. Það þykir renna frekari stoðum undir það að Snowden sé á leið til spænskumælandi lands að færslur á Twitter-síðu Wikileaks af ferðum Snowden í morgun hafa verið bæði á ensku og spænsku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert