Bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden valdi undarlega leið á flótta sínum eftir að hann tók sér það fyrir hendur að verja frelsi einstaklingsins. Hann fór fyrst til Kína, leitaði síðan á náðir leiðtogans sterka í Rússlandi og hermt var í gær að hann hygðist fara þaðan til Kúbu. Öll eru þessi lönd þekkt fyrir margt annað en virðingu fyrir mannréttindum. Sumir veltu því fyrir sér hvort Snowden myndi jafnvel leita á náðir stjórnvalda í Norður-Kóreu, sem væru örugglega fús til að koma honum til hjálpar, en fregnir herma að hann hafi að lokum ákveðið að sækja um hæli í Ekvador, landi sem hefur ekki farið varhluta af mannréttindabrotum.
Stjórn vinstrimannsins Rafaels Correa, forseta Ekvadors, hafði áður reitt bandarísk stjórnvöld til reiði með því að veita Julian Assange, stofnanda Wikileaks, hæli sem pólitískum flóttamanni, en hann dvelur nú í sendiráði landsins í Lundúnum.
Sérfræðingar í málefnum Ekvadors undruðust þá ákvörðun Assange að leita eftir aðstoð Correa sem segist vilja halda verndarhendi yfir Wikileaks en vílar ekki fyrir sér að berja á fréttamönnum og fjölmiðlum í eigin landi. „Correa er staðráðinn í því að verja tjáningarfrelsi Assange, en hann virðir ekki tjáningarfrelsið í Ekvador,“ hafði fréttaveitan AFPeftir stjórnmálaskýrandanum Vladimiro Alvarez, fyrrverandi menntamálaráðherra Ekvadors. „Ríkisstjórn hans beitir fjölmiðlana þrýstingi og ræðst á blaðamenn sem gagnrýna stefnu hans í stjórnmálum.“
Bandarísku samtökin CPJ, sem berjast fyrir frelsi fjölmiðla í heiminum, hafa sakað stjórn Correa um að hafa lokað útvarpsstöðvum, sem hafa gagnrýnt hann, takmarkað kosningaumfjöllun einkarekinna fjölmiðla og misnotað ríkisfjölmiðla til að þjarma að pólitískum andstæðingum sínum.
Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa einnig gagnrýnt fjölmiðlalög sem þing Ekvadors samþykkti 14. júní sl. Samtökin segja lögin „grafa undan málfrelsinu með alvarlegum hætti“ og „skerða tjáningarfrelsi fréttamanna og fjölmiðla“.
Áður en fjölmiðlalögin voru hert hafði Correa átt í langvinnri baráttu fyrir dómstólum við dagblaðið El Universovegna greinar þar sem blaðið sakaði hann um „glæpi gegn mannkyni“ vegna viðbragða hans við uppreisn lögreglu- og hermanna sem mótmæltu breytingum á launakjörum sínum 30. september 2010. Correa lýsti yfir neyðarástandi og fyrirskipaði hernum að binda enda á mótmælin með árás sem kostaði fimm menn lífið. Forsetinn höfðaði mál gegn fjórum blaðamönnum, höfundum greinarinnar og eigendum blaðsins. Þeir voru allir dæmdir í þriggja ára fangelsi fyrir að ófrægja forsetann og þeim var gert að greiða jafnvirði 4,9 milljarða króna í sekt. Dómurinn vakti hörð viðbrögð og forsetinn ákvað síðar að veita blaðamönnunum sakaruppgjöf.
Að sögn Fréttamanna án landamæra (RWB) er Ekvador í 119. sæti af 179 á lista þar sem ríkjum er raðað eftir því hvar fjölmiðlafrelsið telst mest. Í skýrslu bresku stofnunarinnar Freedom House, sem metur frelsi í ríkjum heims, er Ekvador flokkað með ríkjum sem teljast „að hluta til frjáls“ og sagt er að ástandið í mannréttindamálum fari versnandi.