David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, kom óvænt til Afganistans í morgun en tilgangur ferðarinnar er m.a. að hitta forseta landsins og fara yfir stöðu viðræðna við talibana.
Forsætisráðherrann heilsaði upp á breskar hersveitir í Helmand héraði í suðurhluta landsins áður en hann flaug til höfuðborgarinnar Kabúl þar sem hann hitti Hamid Karzai forseta á fundi.
Ríkisstjórn landsins hefur að undanförnu með aðstoð alþjóðlegra sveita reynt að blása nýju lífi í friðarviðræður við talibana. Fréttamenn náðu tali af Cameron þar sem hann var staddur í Helmand héraði. Sagði forsætisráðherrann m.a. að enn væri langur vegur framundan í viðræðunum.
„Það jákvæða er hins vegar að talsmenn talibana segjast ekki lengur vilja að öðrum ríkjum stafi ógn af Afganistan.“
Nick Carter, hershöfðingi í breska hernum í Afganistan, sagði nýverið í viðtali við breska fjölmiðla að Vesturveldin hefðu misst af gullnu tækifæri til friðarviðræðna fyrir 10 árum síðan. „Þá voru sveitir talibana á flótta,“ segir hann og bendir á að með framsýni á þeim tíma hefði verið hægt að fá Afgana að samningaborðinu til þess að ræða framtíð landsins.