„Hvíti úlfurinn“ loks gómaður

Leiðtogi í glæpaklíku í Taívan sem eftirlýstur hefur verið í 17 ár var loks gómaður á flugvelli í borginni Taipei. Lögreglan hefur reynt að hafa hendur í hári mannsins, sem er 65 ára gamall, frá því að hann flúði land og hélt til Kína.

Maðurinn sem heitir Chang An-lo er þekktur undir viðurnefninu „Hvíti úlfurinn“ og er hann sagður vera lykilmaður í Bambusreyr samtökunum sem eru alræmd glæpasamtök þar í landi. Meðlimir Bambusreyr samtakanna eru sagðir tengjast skipulagðri glæpastarfsemi á borð við fjárkúgun, þvingun og peningaþvætti. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögregluyfirvöldum í Taívan var „Hvíti úlfurinn“ handtekinn við komuna til landsins en hann mun hafa gefið sig fram við lögreglu. Var hann í kjölfarið færður í varðhald. Chang An-lo er mikill áhugamaður um stjórnmál og var tilgangur hans með ferðinni aftur til Taívans að kynna stjórnmálaskoðanir sínar.

Glæpaforinginn gamli var fæddur í Kína en fluttist til Taívan ásamt fjölskyldu sinni eftir að kommúnistar tóku þar völdin árið 1949. Hann gekk til liðs við Bambusreyr samtökin þegar hann var táningur og vann sig fljótt upp metorðastigann.

„Hvíti úlfurinn“ flúði frá Taipei árið 1996.

Chang An-lo, eða „Hvíti úlfurinn“, hefur verið handtekinn.
Chang An-lo, eða „Hvíti úlfurinn“, hefur verið handtekinn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert