John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur hætt við fyrirhugaða heimsókn sína til Sameinuðu arabísku furstadæmanna en upphaflega stóð til að hann kæmi til Abu Dhabi í dag.
Samkvæmt AFP-fréttaveitunni var hætt við ferðina sökum þess að utanríkisráðherrann vill leggja allt kapp á að friðarviðræður milli Ísraels og Palestínu skili árangri.
John Kerry mun því, þriðja daginn í röð, ferðast á milli Ísraels og Palestínu til þess að ræða við leiðtoga Ísraels í Jerúsalem og Mahmud Abbas, forseta Palestínu, sem staddur er í Amman.
Utanríkisráðherrann hefur haft í nógu að snúast að undanförnu og meðal annars ferðast til Indlands, Kúveit, Katar og Sádí Arabíu. Næstkomandi mánudag mun Kerry að líkindum ferðast til Brúnei og sitja fund Asíuríkja.