„Það fóru alls engar samningaviðræður fram, við náðum engum árangri í ferlinu. Við komumst aðeins að raun um að það var ekkert í boði annað en að samþykkja það sem boðið var upp á.“ Þetta er haft eftir króatíska sjómanninum Danilo Latin í frétt Reuters en fjölskylda hans hefur haft viðurværi sitt af sjósókn í fjóra ættliði. Króatía gekk formlega í Evrópusambandið á miðnætti í gær í kjölfar viðræðna við sambandið og þjóðaratkvæðagreiðslu.
Fram kemur í fréttinni að flestir þarlendir sjómenn, sem séu um 3.700, óttist að inngangan kunni að hafa í för með sér endalok króatísks sjávarútvegar en í viðræðunum við Evrópusambandið var samið um nokkrar tímabundnar aðlaganir að sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins, meðal annars varðandi notkun veiðarfæra og fiskveiðar til eigin neyslu. „Ég er hræddur um að margt eigi eftir að koma okkur óþægilega á óvart,“ segir Latin ennfremur og vísar þar meðal annars til aukinna takmarkana á sjósókn, minni niðurgreiðslna og kröfu um breytt veiðarfæri sem hafa muni í för með sér mikinn kostnað.
Hafa áhyggjur af ásókn ítalskra sjómanna
Fram kemur í fréttinni að flestir aðrir sjómenn í strandhéröðum Króatíu deili áhyggjum Latins. Þeir telji að króatísk stjórnvöld sem sömdu um inngöngu landsins í Evrópusambandið hafi ekkert gert til þess að standa vörð um hagsmuni þeirra. Þar segir ennfremur að inngangan muni hafa í för mér sér að fiskiskip frá öðrum ríkjum sambandsins muni fá aðgang að efnahagslögsögu Króatíu. Mestar áhyggjur heimamanna í þeim efnum snúa að ítalska fiskiskipaflotanum.
Haft er eftir Miro Kucic, aðstoðarlandbúnaðarráðherra Króatíu, að margfalt meiri fisk sé að finna í Króatíumegin í Adríahafinu en Ítalíumegin. Hagsmunir Ítala af því að komast í króatísk fiskimið væru því miklir og því mikilvægt að vinna að því með ítölskum stjórnvöldum að vernda fiskistofnana á svæðinu. Hins vegar sé gert ráð fyrir því að 12 mílna landhelgi Króatíu sé eingöngu fyrir króatíska sjómenn.
Ætla að verja hagsmuni Króatíu innan ESB
En Latin segir að engin trygging sé fyrir því að Króatar sitji einir að 12 mílunum. Ítalskar útgerðir þurfi einungis að semja við króatískan sjómann sem sé reiðubúinn að selja veiðileyfi sitt og hætta sjálfur starfsemi og stofna síðan eigið fyrirtæki í Króatíu. Kucic segir hins vegar að nú þegar Króatía sé gengin í Evrópusambandið sé hægt að berjast fyrir hagsmuni króatískra sjómanna innan þess.
„Það var ekki hægt að ætlast til þess að Evrópusambandið samþykkti okkar lög í viðræðunum. En nú erum við fullgildur aðili að sambandinu og getum unnið með Ítalíu og Slóveníu, sem glíma við hliðstæð vandamál í Adríahafinu, til þess að koma málstað okkar á framfæri,“ segir Kucic. Markmiðið væri að fá samþykkt frávik frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins í ljósi sérstakra aðstæðna í Adríahafi.
Farið úr 400 fiskiskipum niður í 30 á áratug
Fram kemur í fréttinni að jafnvel þó það takist að semja um slík frávik frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins kunni það að verða of seint. Tonci Trevizan, sem fer fyrir sjómannasamtökum á Istria-skaga sem skiptist landfræðilega á milli Króatíu, Slóveníu og Ítalíu, segir í samtali við Reuters að fyrir tíu árum hafi sjávarútvegur á svæðinu verið ábatasamur en sé nú í hnignun, einkum vegna verri stöðu fiskistofna og aukinnar skriffinnsku.
Hliðstæða sögu segir slóvenski sjómaðurinn Loredano Pugliese sem gerir út frá hafnarborginni Izola. Hann segir að staða sjávarútvegsmála í Slóveníu hafi sífellt orðið verri undanfarin ár en landið gekk í Evrópusambandið árið 2004. Þegar hafi orðið mikill samdráttur í greininni. Izola hafi áður verið þungamiðjan í slóvenskum sjávarútvegi en 30 fiskiskip séu nú gerð út frá borginni samanborið við 400 fyrir áratug. Pugliese segir fiskveiðistjórnun sambandsins einkum bera ábyrgð á þessari þróun. Ef fer sem horfir segir hann enga sjómenn verða eftir á svæðinu og hann óttist að það sama verði raunin í Króatíu.