Njósnir um bandamenn ekki „óvenjulegar“

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, hefur brugðist við ásökunum um að Bandaríkjamenn hafi njósnað um bandamenn sína með því að segja slíka starfsemi ekki „óvenjulega“ í alþjóðasamskiptum. Öll ríki heimsins gripu til ýmissa aðferða til þess að vernda þjóðaröryggi sitt og það kallaði á allskonar upplýsingar. Hins vegar vildi hann ekki tjá sig nánar um málið fyrr en hann hefði gert sér nákvæmlega grein fyrir stöðu málsins. Þetta kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC.

Upplýsingar um að Bandaríkin hafi njósnað um bandamenn sína í Evrópu, þar á meðal Evrópusambandið, Frakkland, Ítalíu og Grikkland, hafa vakið mikla reiði en þeim var lekið af fyrrverandi starfsmanni bandarísku leyniþjónustunnar CIA, Edward Snowden, sem talinn er vera enn á flugvelli í Moskvu eftir að flogið þangað frá Hong Kong fyrir rúmri viku.

Evrópusambandið hefur meðal annars varað við því að upplýsingarnar kunni að hafa neikvæð áhrif á fyrirhugaðar viðræður sambandsins við Bandaríkin um fríverslun sem hefjast eiga á næstunni. Haft er eftir Viviane Reding, dómsmálastjóra Evrópusambandsins, í fréttinni að samstarfsaðilar njósni ekki hverjir um aðra. Ekki verði hægt að fara út í slíkar viðræður sé einhver grunur um að Bandaríkjamenn hleri skrifstofur sambandsins. Fleiri forystumenn innan Evrópusambandsins hafa tekið í hliðstæðan streng.

Forseti Frakklands, François Hollande, krafðist þess í dag að Bandaríkin hættu að njósna um evrópskar stofnanir. „Við getum ekki sætt okkur við svona hegðun á milli samstarfsaðila og bandamanna,“ sagði hann við blaðamenn samkvæmt frétt AFP. „Við förum fram á það að þessu verði samstundis hætt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert