Bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden hefur sótt um pólitískt hæli í Rússlandi. AFP-fréttaveitan hefur þetta eftir starfsmanni utanríkisráðuneytisins þar í landi. Uppljóstrarinn hefur í rúma viku haldið til á millilendingarsvæði á Sheremetyevo-flugvellinum í Moskvu höfuðborg Rússlands.
Sami heimildarmaður segir við AFP-fréttaveituna að breskur ríkisborgari, Sarah Harrison, hafi mætt á skrifstofu ræðismanns á Sheremetyevo-flugvellinum með beiðni Snowdens um pólitískt hæli í Rússlandi.
Sarah Harrison er starfsmaður Wikileaks og var hún í för með Snowden þegar hann ferðaðist til Rússlands frá Hong Kong.