Vígamenn felldir í Pakistan

Ómönnuð flugvél.
Ómönnuð flugvél. AFP

Ómannaðar árásarflugvélar á vegum Bandaríkjahers felldu fjóra vígamenn úr röðum talibana í norðvesturhluta Pakistans í dag. Samkvæmt AFP-fréttaveitunni voru vélarnar fjórar talsins og skutu þær jafnmörgum flugskeytum á skotmörk sín í bænum Miranshah.

Er þetta önnur árás ómannaðra bandarískra flugvéla í Pakistan frá því að Nawaz Sharif tók við embætti forsætisráðherra Pakistans í síðasta mánuði. Hann hefur krafist þess að árásum af þessu tagi linni þar sem þær eru taldar brjóta gegn fullveldi landsins.

Fyrri árásin átti sér stað einungis tveimur dögum eftir að Sharif tók við embætti en í henni létust sjö vígamenn.

Öryggissveitir á svæðinu segja við AFP-fréttaveituna að ómannaðar vélar hafi sést á flugi áður en árásin hófst. „Fjórar ómannaðar flugvélar flugu yfir svæðinu. Tvær þeirra skutu fjórum flugskeytum á bygginguna þar sem fjórir vígamenn féllu og tveir særðust.“

Þá var fréttamaður AFP einnig vitni að því þegar flugvélarnar flugu yfir svæðið eftir árásina.

Árásir af þessu tagi eru mjög óvinsælar í Pakistan en ráðamenn í Washington í Bandaríkjunum telja þær mikilvægan lið í baráttunni við talibana og liðsmenn hryðjuverkasamtaka al-Qaeda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert