Frelsisflokkurinn í Hollandi stærstur

Hollenski stjórnmálamaðurinn Geert Wilders.
Hollenski stjórnmálamaðurinn Geert Wilders. AFP

Frelsisflokkur hollenska stjórnmálamannsins Geerts Wilders mælist stærsti stjórnmálaflokkur Hollands samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem birtar voru í dag og fjallað er um á fréttavef írska dagblaðsins Irish Times.

Samkvæmt skoðanakönnuninni myndi Frelsisflokkurinn fá 29 þingsæti á hollenska þinginu í stað 14 eins og staðan er í dag en samtals sitja sitja 150 þingmenn þar. Frjálslyndi flokkurinn, flokkur Marks Rutte forsætisráðherra, myndi hins vegar fara úr 42 þingsætum í 21 og Verkamannaflokkurinn, samstarfsflokkur hans í ríkisstjórn, úr 28 sætum í 16.

Fram kemur í fréttinni að vinsældir ríkisstjórnar Ruttes hafi minnkað hratt. Einungis um þriðjungur vill að ríkisstjórnin sitji út kjörtímabilið samanborið við 44% í febrúar síðastliðnum og 63% þegar stjórnin var mynduð í október á síðasta ári.

Skýringarnar eru einkum raktar til aðhaldsaðgerða stjórnvalda í efnahagsmálum Hollands og minnkandi stuðnings við evruna en Frelsisflokkurinn er mjög gagnrýninn á Evrópusambandið og aðild landsins að evrusvæðinu. Flokkurinn hefur einnig boðað harða innflytjendastefnu.

Frétt Irish Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert