Bjargað úr klóm tígrisdýra

Tígrishvolpur.
Tígrishvolpur.

Fimm mönnum, sem sátu fastir í tré í Indónesíu umkringdir tígrisdýrum, var í dag bjargað úr prísundinni. Þeir máttu dúsa í trénu í 5 daga, en dýrin réðust á þá eftir að þeir bönuðu tígrishvolpi fyrir slysni. 

Fram kemur á vef BBC að tugir björgunar- og lögreglumanna hafi tekið þátt í björgunarleiðangrinum í Leuser-þjóðgarðinum á eyjunni Súmötru. Þjóðgarðurinn er stór, tæpir 8 þúsund ferkílómetrar, og tók því tíma að ná til mannanna og hrekja tígrisdýrin á flótta.

Framkvæmdastjóri þjóðgarðsins, Andi Basrul, segir að verið sé að flytja mennina í nærliggjandi þorp í um 6 klukkustunda göngufjarlægð. Þeir eru sagðir veikburða af næringarleysi enda hafa þeir hvorki etið né drukkið í þrjá daga.

Mennirnir eru allir heimamenn frá þorpinu Simpang Kiri. Þeir egndu gildrur fyrir dádýr sér til matar, en veiddu óvart tígrishvolp. Hljóðin í særðu dýrinu dró hóp tígrisdýra á staðinn sem réðst á mennina og drápu einn þeirra. Hinir 5 flýðu þá upp í tré en gátu látið vita af sér með hjálp farsíma. Minnst fjögur fullvaxin tígrisdýr sátu um þá fyrir neðan tréð.

Súmötru-tígurinn er minnstur allra tígrisdýra og hvergi annars staðar að finna en á indónesísku eyjunni. Tegundin er í útrýmingarhættu og er talið að aðeins um 350 villtir Súmötru-tígar lifi.

Fimm menn fangar tígrisdýra í tré

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert