Hafði 43 flugtíma í Boeing 777

Flak vélarinnar.
Flak vélarinnar. AFP

Talsmaður flugfélagsins Asiana Airlines greindi frá því í morgun að flugstjóri Boeing 777 flugvélarinnar sem brotlenti á flugvellinum í San Francisco hafi verið í þjálfun og því með litla reynslu af flugvélum af þessari gerð.

Samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu hafði flugstjórinn, sem heitir Lee Kang-Kuk, einungis lokið 43 flugtímum í flugvél af þessari gerð áður en slysið átti sér stað. Kang-Kuk er hins vegar reyndur flugmaður því samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu hefur hann yfir 9.000 flugtíma að baki.

Kang-Kuk flugstjóri naut leiðsagnar kennara sem sagður er vera mjög reyndur og hefur AFP-fréttaveitan eftir talsmanni Asiana Airlines að kennarinn hafi gegnt stöðu aðstoðarflugmanns þetta umrædda flug.

Fram hefur komið að talsmaður Boeing-flugvélanna telur nær útilokað að vélarbilun hafi orsakað flugslysið en 307 voru um borð í flugvélinni þegar hún brotlenti á leið sinni til San Francisco frá Incheon-flugvelli nærri Seúl í Suður-Kóreu.

Þá var greint frá því í gær að um einni og hálfri sekúndu áður en flugvélin brotlenti óskaði flugmaðurinn eftir heimild frá flugturninum til að hætta við lendingu og fljúga einn hring. Vitnum að slysinu ber saman um að vélin hafi komið of lágt inn til lendingar. Svo virðist sem flugmaðurinn hafi skömmu fyrir slysið ákveðið að reyna að ná henni upp aftur og forðast lendingu.

Tvær kínverskar stúlkur létust í slysinu, en 181 var fluttur á sjúkrahús.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert