Geymir 38.000 sígarettur á heimili sínu

Helmut Schmidt, fyrrverandi kanslari Þýskalands.
Helmut Schmidt, fyrrverandi kanslari Þýskalands. AFP

Fyrrverandi kanslari Þýskalands, Helmut Schmidt, hefur komið sér upp miklum birgðum af uppáhalds mentól-sígarettunum sínum á heimili sínu af ótta við að þær verði bannaðar af Evrópusambandinu. Þetta kemur fram í þýska dagblaðinu Hamburger Morgenpost.

Schmidt er 94 ára gamall og er ekki síst þekktur fyrir miklar reykingar sínar sem honum hefur verið leyft að stunda meðal annars í sjónvarpsútsendingum og á ráðstefnum sem haldnar hafa verið innanhúss þrátt fyrir að almennt sé slíkt ekki leyfilegt.

Fram kemur í fréttinni að sá sem ljóstrað hafi þessu upp sé Peer Steinbrück, fyrrverandi fjármálaráðherra, en þeir Schmidt eru báðir félagar í þýska Jafnaðarmannaflokknum. Steinbrück lét þessa getið í samtali við fulltrúa úr viðskiptalífinu á kosningafundi á dögunum.

Samkvæmt Steinbrück geymir Schmidt um 200 karton af uppáhalds sígarettunum sínum, Reyno, á heimili eða um 38 þúsund sígarettur. Steinbrück upplýsti einnig af sama tilefni að hann hefði sjálfur komið sér upp birgðum af sérstökum frönskum ljósaperum sem hann óttaðist að Evrópusambandið kynni að banna samkvæmt nýrri löggjöf. Um væri að ræða ákveðið andóf af hans hálfu gegn „reglugerðabrjálæði“ sambandsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert