Bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden hefur tekið boði stjórnvalda í Venesúela um pólitískt hæli í landinu en hann hefur undanfarnar rúmar tvelr vikur haldið til á alþjóðaflugvelli í Moskvu, höfuðborg Rússlands, eftir að hafa flogið þangað frá Hong Kong.
Þetta er haft eftir rússneska þingmanninum Alexei Pushkov í frétt AFP á Twitter-síðu hans en hann á sæti í alþjóðamálanefnd rússneska þingsins. Fram kemur í fréttinni að nokkrum mínútum síðar hafi skilaboðin horfið af síðunni. Ummæli Pushkov koma í kjölfar ítrekaðra yfirlýsinga stjórnvalda í Venesúela um að Snowden standi til boða pólitískt hæli í landinu en slík boð hafa einnig borist frá Bolivíu og Níkaragva.
Ekki er hins vegar ljóst hvort og þá hvernig Snowden tekst að yfirgefa alþjóðaflugvöllinn í Moskvu en hann er án nauðsynlegra ferðaskilríkja. Þá eru engin bein flug frá rússnesku höfuðborginni og til Caracas höfuðborgar Venesúela. Fljótlegasta leiðin væri að millilenda í Havana höfuðborg Kúbu.
Fram kemur í fréttinni að síðasta flug frá Moskvu til Havana hafi verið í dag en engar upplýsingar liggja fyrir um það hvort Snowden hafi verið um borð í þeirri flugvél. Næsta flug til Havana er á morgun miðvikudag.