Boðar til kosninga vegna njósnahneykslis

Jean Claude Juncker
Jean Claude Juncker Reuters

Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, hefur boðað til kosninga í kjölfar njósnahneykslis sem hefur valdið miklum titringi í stjórnmálum landsins. Hann hefur verið forsætisráðherra dvergríkisins síðan árið 1995.

Mun það vera lengsta samfellda valdaskeið þjóðarleiðtoga í aðildarríki Evrópusambandsins, að því er fram kemur í umfjöllun Financial Times um málið í kvöld.

Juncker hefur átt í vök að verjast vegna uppljóstrana Patricks Heck, yfirmanns leyniþjónustu landsins, um að hún hafi hlerað samtöl fjölmargra forystumanna í landinu, þar með talið forsætisráðherrans.

Fóru hleranirnar fram á árunum 2004 til 2009 eða þar til fyrirrennara Hecks í embætti var vikið úr störfum.

Sagðir hafa þegið mútur

Er Juncker gagnrýndur fyrir að hafa ekki upplýst þingið um hlerarnirnar en starfsmönnum leyniþjónustunnar er meðal annars gefið að sök að hafa þegið mútur frá fjármálamönnum gegn því að fá aðgang að embættismönnum. Er sá aðgangur ekki útskýrður í frétt Financial Times um málið.

Juncker varði gjörðir sínar í tveggja tíma ræðu í þinginu og sagði þar meðal annars að ekki væri hægt að draga menn til ábyrgðar fyrir hluti sem þeir vissu ekki um.

Hafa andstæðingar Junckers gripið málið á lofti og sakað hann um að verja of miklum tíma í störf á vegum ESB í Brussel og þannig lítið getað fylgst með stjórnmálum í heimalandinu. En hann fór fyrir vinnuhópi fjármálaráðherra evruríkjanna þangað til nýverið.

Er óvíst hvort Juncker sækist eftir endurkjöri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert