Óttinn hvarf og hugrekkið kom

Pakistanska stúlkan Malala Yousafzai sagði í ávarpi sínu hjá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag að hún myndi ekki taka hótunum hryðjuverkamanna þegjandi.

Þetta er í fyrsta sinn sem Malala talar opinberlega frá því að hún varð fyrir árás talibana.

„Þeir héldu að byssukúla myndi þagga niður í okkur, en það var rangt,“ sagði Malala sem fagnar 16 ára afmæli í dag. Í ræðunni fjallað hún m.a. um menntun barna og að þjóðir heimsins ættu að taka saman höndum til að auka hana.

„Hryðjuverkamennirnir héldu að þeir gætu breytt markmiðum mínum og stöðvað metnað minn en ekkert breyttist nema þetta: Magnleysi, ótti og vonleysi hvarf. Styrkur, hugrekki og áhugi varð til,“ sagði Malala og uppskar standandi lófaklapp.

Malala er einlægur stuðningsmaður menntunar til handa stúlkum. Hún var skotin í höfuðið af liðsmanni talíbana er hún var á leið í skólann í heimabæ sínum í Pakistan 12. október í fyrra.

Hún fékk m.a. meðferð í Bretlandi sem talin er hafa bjargað lífi hennar. Þar býr hún enn en árásin hefur blásið miklu lífi í baráttu hennar fyrir menntun stúlkna.

Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, segir Malölu „hugrökkustu stúlku heims“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka