Minnst 23 eru slasaðir, þar af einn alvarlega, eftir að nautgripir tróðust yfir hóp fólks sem staddur var við inngang að nautaatsleikvangi í borginni Pamplona á Spáni. Fólkið sem slasaðist var þátttakendur í vinsælu nautahlaupi þar í borg.
AFP-fréttaveitan greinir frá því að minnst tvö naut hafi stokkið ofan á hópinn með þeim afleiðingum að fjölmargir tróðust undir en mikil örtröð hafði myndast við innganginn að vellinum. Gat fólk því ekki forðað sér undan dýrunum.
Einn var fluttur alvarlega slasaður á sjúkrahús. Sá er 19 ára gamall með mikla áverka á brjóstkassa. AFP-fréttastofan hefur eftir sjúkraflutningamanni að pilturinn sé í alvarlegu en stöðugu ástandi.
Nautahlaupið í Pamplona fer þannig fram að nautum er sleppt út á götur borgarinnar og elta dýrin hóp fólks inn á nautaatsleikvang. Um 13.000 naut eru drepin í nautaati á Spáni á hverju ári.