Bandaríkjamenn festa Snowden

Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, sakar bandarísk stjórnvöld um að halda uppljóstraranum Edward Snowden föstum í Moskvu. Hann segir Snowden munu yfirgefa Rússland eins fljótt og auðið verði.

„Um leið og kostur er á að hann komist eitthvað, þá mun hann örugglega gera það,“ sagði Pútín en þetta er í fyrsta sinn sem hann tjáir sig opinberlega um mál bandaríska uppljóstrarans frá því að Snowden hélt fund með mannréttindasamtökum og lögfræðingum á föstudag á Sheremetyevo-flugvelli í Moskvu.

Forsetinn sakaði stjórnvöld í Washington um að koma í veg fyrir að Snowden gæti yfirgefið Rússland eftir að hann kom þangað í júní frá Hong Kong.

„Hann kom á okkar yfirráðasvæði óboðinn. Hann flaug ekki til okkar, hann kom hingað í tengiflugi til annarra landa. En um leið og hann var kominn í loftið spurðist það út og bandarískir félagar okkar komu í raun í veg fyrir að hann flygi lengra. Þeir hafa sjálfir hrætt önnur lönd, enginn vill taka við honum og þess vegna hafa þeir sjálfir í raun fest hann á okkar yfirráðasvæði,“ sagði Pútín.

Þegar hann var spurður að því hvað yrði um Snowden, vék rússneski forsetinn sér undan því að svara hvort Rússar myndu veita honum hæli eins og hann hefur falast eftir.

„Hvernig ætti ég að vita það? Þetta er hans líf og hans örlög,“ svaraði Pútín, spurður um hvað yrði um uppljóstrarann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert