Fleiri breskir hermenn frömdu sjálfsvíg á síðasta ári heldur en létust í bardögum í Afganistan.
Samkvæmt því sem kemur fram í fréttaskýringu BBC Panorama framdi 21 hermaður sjálfsvíg í fyrra og 29 fyrrverandi hermenn. Á sama tímabili létust 44 breskir hermenn í Afganistan, þar af 40 í bardögum við talibana.
Fjölskyldur sumra hermannanna sem frömdu sjálfsvíg segja að þeir hafi ekki fengið nægan stuðning frá hernum, til að mynda eftir að hafa tekið þátt í stríðinu í Afganistan.
Lifði af tvær árásir og horfði á vin sinn sprengdan í tætlur
Einn þeirra hermanna sem frömdu sjálfsvíg í fyrra er Dan Collins, 29 ára, en hann barðist í Helmand-héraði í Afganistan sumarið 2009.
Móðir hans, Deana Collins, segir að hann sé fórnarlamb stríðsins í Afganistan. Collins lifði af tvær árásir, sprengjutilræði og skotárás í Afganistan og horfði á vin sinn sprengdan í tætlur er vegsprengja sprakk þar sem þeir áttu leið um. Móðir hans segir að þegar liðið hafi á dvölina í Afganistan hafi símtölin breyst og hún man þegar hann sagði eitt sinn: „Mamma þessi staður er helvíti á jörðu og ég þrái að komast héðan.“
Eftir sex mánaða hermennsku í Afganistan sneri hann heim til fjölskyldunnar. Unnusta hans, Vicky Roach segir að ljóst hafi verið að um breyttan mann var að ræða. Martraðirnar á nóttunni hafi verið skelfilegar og greinilegt að hann upplifði átökin aftur og aftur í svefni.
Collins var greindur með áfallastreituröskun af geðlæknum hersins en eftir tíu mánaða meðferð var honum tjáð að hann hefði náð bata og ætti að koma aftur til skyldustarfa. Næstu þrjá mánuði reyndi hann í tvígang að fremja sjálfsvíg. Collins hætti að mæta á heilsugæsluna og sagði unnustu sinni að martraðirnar færu versnandi.
„Ég vildi hjálpa honum en vissi ekki hvað væri til ráða,“ segir Roach. „Þetta reynir á styrk sambands og ég bað hann um að fara,“ bætir hún við. Á gamlárskvöld 2011 fór hann frá henni íklæddur hermannabúningi sínum og ók upp í fjalllendi Pembrokeskíris. Þar tók hann upp kveðjumyndskeið á síma sinn og hengdi sig.
Í Panorama þætti BBC eru fleiri dæmi tekin af hermönnum sem buguðust eftir stríðsátök en hægt er að lesa fréttina hér.