Þar sem göturnar eru nafnlausar

Það er hægara sagt en gert að bera út póst í höfuðborg Afganistans, Kabúl, þar sem götur eru oftar en ekki nafnlausar. Póstburðarfólk þarf því að taka að sér hlutverk leynilögreglumanna til þess að komast að því hvar viðkomandi á heima.

Einn þeirra sem annast póstdreifingu í Kabúl er Mohammad Rahim en hann fer allra ferða í vinnunni á gömlu reiðhjóli.

Hann sýnir fréttamanni AFP bréf sem hann á að koma til skila. Sá sem á að fá bréfið býr nálægt húsi læknisins Hashmat. Heimilisfangið er ekki vitað og það eina sem Rahim hefur í höndunum er heimilisfang læknisins. Auk þess fylgja nánari leiðbeiningar á bakhlið umslagsins: Kart-e-Sakhi-hæðin fyrir aftan landbúnaðarráðuneytið.

Alls eru íbúar Kabúl um fimm milljónir talsins en fjöldi fólks hefur flutt til borgarinnar í atvinnuleit og á flótta undan stríðsátökum víða um landið. Nú hafa borgaryfirvöld ákveðið að bæta úr nafnleysinu og skrifað undir samkomulag við upplýsingamálaráðuneytið um að koma upp nýju heimilisfangakerfi. Meðal annars verður stuðst við GPS-punkta sem kemur til með að auðvelda póstburðarfólki störf sín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert