Aðdáandi Breivik handtekinn

Varg Vikernes
Varg Vikernes Af vef Wikipedia

Franska lögreglan hefur handtekið Norðmann en hann er grunaður um að undirbúa hryðjuverk. Norðmaðurinn sat í fangelsi í Noregi á sínum tíma fyrir morð en hann er mikill aðdáandi Anders Bering Breivik. Þetta kemur fram í frétt á vef Berlingske.

Norðmaðurinn, Kristian „Varg“ Vikernes, er fertugur að aldri og þekktur þungarokkari. Samkvæmt frétt Le Parisien var hann handtekinn á heimili sínu í Corrèze í morgun en þar býr hann ásamt franskri eiginkonu og þremur börnum. Leitar lögregla nú á heimili hans að vopnum og sprengiefni. Vitað er að hann keypti nýlega fjóra riffla, samkvæmt fréttum franskra miðla.

Vikernes var dæmdur í 21 árs fangelsi árið 1994 fyrir morð á gítarleikaranum
Øystein Aarseth og fyrir að hafa tekið þátt í að kveikja í fjórum kirkjum. Hann var látinn laus úr fangelsi árið 2009.

Vikernes er yfirlýstur nýnasisti og fékk nýlega stefnuyfirlýsingu Breivik senda og varð það til þess að frönsk yfirvöld fóru að gefa honum gætur. Þrátt fyrir að hafa fylgt Breivik í einhverjum málum hefur Vikernes gagnrýnt Breivik fyrir að hafa myrt saklaust fólk.

Frétt Le Parisien

Frétt VG

Frétt Berlingske


Kristian Varg Vikernes árið 1994.
Kristian Varg Vikernes árið 1994. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert