Sækir um tímabundið hæli í Rússlandi

Bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden hefur sótt um tímabundið hæli í Rússlandi. Í heimalandi sínu hefur Snowden verið ákærður fyrir að leka trúnaðargögnum ríkisins en hann flúði til Rússlands frá Kína.

Hefur uppljóstrarinn nú dvalið á alþjóðaflugvellinum í Moskvu frá 23. júní síðastliðnum.

„Búið er að senda umsóknina til rússneskra yfirvalda,“ segir Anatoly Kucherena, þekktur rússneskur lögmaður, í samtali við AFP-fréttaveituna en Snowden hefur að undanförnu leitað álits Kucherena og fengið aðstoð hans við að skilja rússnesk lög.

Lögmaðurinn sagði einnig að Snowden myndi áfram halda til á flugvellinum því einhvern tíma myndi taka að afgreiða umsókn hans um hæli. Áður hefur komið fram að uppljóstrarinn mun ekki fá neina sérstaka flýtimeðferð í máli sínu. 

„Hann óttast um líf sitt og öryggi. Hann óttast að hann verði dæmdur til dauða eða pyndaður fari hann aftur til Bandaríkjanna,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir lögmanninum.

Segir Kucherena lögmaður því rússnesku innflytjendastofnunina eiga að samþykkja umsókn Edwards Snowdens.

Uppljóstrarinn Edward Snowden.
Uppljóstrarinn Edward Snowden. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert