Boris Johnson, borgarstjóri í London, vill að Heathrow-flugvöllur verði lagður niður og byggður verði nýr flugvöllur í eyjum á ánni Thames eða að byggðar verði fleiri flugbrautir við Stansted-flugvöll.
Miklar umræður hafa staðið í Bretlandi í nokkur ár um framtíð Heathrow, en gríðarleg flugumferð er um völlinn og hann getur ekki tekið við meiri umferð. Johnson segir að London muni tapa í samkeppni við aðrar borgir ef ekki verði fundi lausn sem geri borginni fært að taka við fleiri flugfarþegum. Hann segir að byggja þurfi flugvöll með fjórum flugbrautum, en aðeins tvær flugbrautir eru á Heathrow.
Johnson er ekki í vandræðum með að koma fyrir sig orði og hann sagði í gær að sá sem héldi því fram að hægt væri að stækka Heathrow væri brjálaður. Ekki er langt síðan flugstöðin á flugvellinum var stækkuð.