Elísabet II. Englandsdrottning skrifaði í dag undir frumvarp til laga um rétt hinsegin fólks til að ganga í hjónabönd og staðfesti þar með lagalegt jafnrétti Breta til hjónabands óháð kynhneigð. Búist er við að fyrstu hjónavígslurnar fari fram um leið og lögin taka gildi 2014.
Þingmenn fögnuðu þegar fregnin barst af því að hin sögulega lagabreyting hefði formlega verið samþykkt með undirskrift drottningar. David Cameron forsætisráðherra studdi frumvarpið, þrátt fyrir andmæli innan eigin flokks.
„Þetta er söguleg stund sem mun hafa áhrif á líf fjölda fólks,“ sagði menningarmálaráðherrann Maria Miller í dag, en frumvarpið var unnið í ráðuneyti hennar. „Ég er stolt af því að við höfum látið verða af þessu og ég hlakka til fyrstu hinsegin hjónavígslnanna næsta sumar.“
Frumvarpið var samþykkt af lávarðadeildinni á mánudag og í neðri deild þingsins í gærkvöld, en það varð ekki að lögum fyrr en með undirritun þjóðhöfðingjans.