Borgin Detroit sem er í Michigan-ríki í Bandaríkjunum hefur lýst sig gjaldþrota. Málið mun fara fyrir dóm á næstunni, en það gæti tekið ár áður en niðurstaða fæst í það hvort gjaldþrot verði samþykkt eða ekki. Á árum áður var borgin stór iðnaðarborg og hjartað í bílaframleiðslu Bandaríkjanna. Hins vegar hafa minnkandi umsvif framleiðslunnar í takt við aukin félagsleg vandamál leitt til þess að íbúum borgarinnar fer ört fækkandi.
Lýsandi dæmi um ástandið í borginni er til að mynda að um 40% af öllum ljósastaurum í borginni eru biluð, auk þess sem lögreglan og slökkviliðin eru undirmönnuð og með lélegan útbúnað.
Kevyn Orr, sem skipaður hefur verið fulltrúi borgarstjórnar Detroit sendi í dag inn pappírana þar sem sótt er um svokallað „Chapter 9 municipal bankrupcy,“ sem er sérstök heimild sem borgir í Bandaríkjunum hafa til þess að endurskipuleggja fjárhag sinn. Búist er við því að afskrifa þurfi 20 milljarða bandaríkjadala af skuld borgarinnar. Nýlega gat borgin ekki staðið við lífeyrisskuldbindingar sínar að upphæð 40 milljónir bandaríkjadala.
Gjaldþrot Detroit yrði það stærsta hjá bandarískri borg í sögunni. Á meðal stórra borga sem áður hafa orðið gjaldþrota eru Orange County í Californiu og Jefferson County í Alabama.