Lögregluofbeldi er nú til umræðu í Svíþjóð, líkt og á Íslandi, eftir að fjölmiðlar birtu um síðustu helgi upptöku af lögreglukonu sem beitir kylfu og hundi gegn drukknum manni í Stokkhólmi.
Meira en helmingur sænskra lögreglumanna sem sakaðir eru um misbeitingu valds eru sýknaðir. Saksóknarinn Christer Ekelund segir afar erfitt að fá fram sakfellingu vegna lögregluofbeldis.
Myndskeiðið, sem Dagens Nyheter birti, var tekið á snjallsíma í Stokkhólmi aðfaranótt föstudags í síðustu viku. Þar sést lögreglukona með schäffer-hund berja drukkinn mann með kylfu og öskra á hann að leggjast í götuna. Tilefnið mun hafa verið ummæli mannsins um að hann ætlaði að „sprengja alla götuna“.
Framganga lögreglukonunnar er umdeild í Svíþjóð en Dagens Nyheter hafði eftir ríkissaksóknara, Mats Åhlund, að þarna sé augljóst tilefni til sakamálarannsóknar. Myndskeiðið má sjá hér að neðan:
Í kjölfarið um lögregluofbeldi birtir Dagens Nyheter í dag nýja tölfræði frá ríkissaksóknara um afdrif mála sem varða lögregluofbeldi í Svíþjóð.
Þar kemur fram að árið 2011 komu alls 5.600 mál inn á borð saksóknara í Svíþjóð vegna ofbeldis af hálfu lögreglu. Aðeins 1,6% þeirra leiddu til ákæru eða refsingar. Í yfirgnæfandi meirihluta tilfella var niðurstaða saksóknara ýmist að enginn glæpur hefði verið framin eða að ónógar sannanir væru til staðar.
En jafnvel þegar saksóknari telur ástæðu til ákæru endar málið oftar en ekki með sýknu. Á árunum 2005 til 2012 tóku dómstólar í Svíþjóð fyrir 53 mál sem vörðuðu lögregluofbeldi. Í 27 tilfellum var lögreglan sýknuð en 26 mál enduðu með dómi. Þetta er að sögn Dagens Nyheter mun lægra sakfellingarhlutfall en í öðrum dómsmálum, þar sem almennt er sakfellt í um 80% tilfella.
Það sama á ekki við um brot lögreglu í starfi önnur en ofbeldisbrot, eða lögbrot lögreglumanna utan vinnutíma. Saksóknarinn Ekelund segist ekki eiga svar við því hvers vegna lögregluofbeldi skeri sig svo frá öðrum málum fyrir dómstólum.
„Þetta er flókið mál, en stundum hafa dómarar aðra sýn á sakarefnið og hvað teljist vera ofbeldi af hálfu lögreglu.“ Jafnvel þótt upptökur séu til af atvikinu, líkt og í máli lögreglukonunnar í Stokkhólmi, er ekki þar með sagt að ofbeldi teljist sannað.
„Þetta snýst líka um það hvernig lögreglumaðurinn metur aðstæður. Hann kann að segja sem svo að hann hafi litið á þetta sem neyðarræði. Saksóknari þarf þá að sanna að lögregluþjóninn hafi í reynd ekki skynjað aðstæður þannig. Það getur verið afar erfitt,“ segir Ekelund.
Hann bætir við að ekki þurfi að koma á óvart þótt fáar kvartanir um lögregluofbeldi endi með ákæru.
„Margir hafa samband og segjast hafa kvartað yfir störfum lögreglu en að það hafi aldrei verið ætlunin að gera mál úr því. Í sumum tilfellum kvartar fólk yfir að lögregla hafi beitt harðræði en við komumst að þeirri niðurstöðu að það hafi verið eðlileg beiting valds. Það er ekki auðvelt fyrir almenning að meta hvar mörk lögreglu liggja.“