John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti fyrir skömmu að samningar hefðu náðst á milli Ísrael og Palestínu um að hefja friðarviðræður á ný.
„Ég er ánægður með að tilkynna að við höfum náð samkomulagi um grunn fyrir samningaviðræðum á milli Palestínu og Ísrael,“ sagði Kerry á blaðamannafundi.
Fulltrúar Palestínu og Ísraels munu funda með Kerry í Washington í næstu viku þar sem samningaviðræður verða hafnar.
Fyrr í dag flaug Kerry með þyrlu til Jórdan til að funda með Mahmud Abbas, forseta Palestínu til þess að reyna að bjarga þeim friðarviðræðum sem hann hefur staðið fyrir í Miðausturlöndum. Þetta er í þriðja skiptið í þessari viku sem hann fundar með Abbas. Áður en hann fór á staðinn átti hann fjögurra klukkustunda langt símtal við fulltrúa Palestínu og Ísraels.
Undanfarna fjóra daga hefur Kerry átt marga fundi með fulltrúum Palestínu og Ísraels, þar sem hann hefur lagt mikið kapp á að koma friðarviðræðum aftur á.
Þrjú ár eru síðan beinar friðarviðræður fóru síðast fram, en þeim var slitið vegna ágreinings um landnemabyggðir Ísraela á Vesturbakkanum. Kerry sagði að ótímabært væri að segja í hverju samkomulagið felst þar sem enn á eftir að ganga frá því.
Á blaðamannafundinum lofsamaði Kerry forseta Palestínu og forsætisráðherra Ísraels fyrir hugrekki sitt og þá erfiðu ákvörðun sem þeir hefðu með þessu tekið. Þá sagði hann að ágreiningurinn myndi vissulega ekki leysast á einni nóttu og að mörg erfið verkefni væru fyrir höndum.