„Ekkert virkt lýðræði í Bandaríkjunum“

Jimmy Carter.
Jimmy Carter.

Jimmy Carter, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna lýsti á dögunum yfir stuðningi sínum við uppljóstrarann Edward Snowden, sem lak upplýsingum um víðtækar njósnir Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna.

Þetta kemur fram í frétt Huffington Post.

Sagði hann upplýsingar Snowdens hafa reynst gagnlegar og kvað ekkert virkt lýðræði vera til staðar í Bandaríkjunum í dag.

Ummælin féllu á lokuðum fundi í Atlanta sem þýska dagblaðið Der Spiegel flutti fréttir af, en athygli vekur að enginn stóru fjölmiðlanna hefur flutt fréttir af þessum ummælum Carter. Hefur það vakið efasemdir um að Carter hafi raunverulega látið ummælin falla, en þau eru þó í takt við fyrri ummæli hans.

Meðan Snowden sendi út hælisbeiðnir í gríð og erg frá flugvellinum í Moskvu virtist Carter vera einn fárra stjórnmálamanna sem studdi hann í hælisleitinni. Aðrir stjórnmálamenn af báðum vængjum bandarískra stjórnmála hafa ekki hikað við að lýsa Snowden sem svikara sem ætti að sækja til saka.

„Hann braut augljóslega gegn bandarískum lögum og ber ábyrgð á því, en ég held að brot á mannréttindum og friðhelgi einkalífs Bandaríkjamanna hafi gengið of langt,“ sagði Carter CNN og kvað þjóðir heimsins hafa fullan rétt til að veita Snoden hæli.

Á fundinum í Atlanta sagðist Carter telja kviðdóminn hafa komist að réttri niðurstöðu í réttarhöldum yfir George Zimmerman, sem sýknaður var af morðinu á Trayvon Martin á dögunum.

Edward Snowden.
Edward Snowden. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert