Nasistakaffihúsið vekur viðbjóð

Adolf Hitler horfir stingandi augum á háskólanemana sem gæða sér á snitsel og þýskum bjór á kaffihúsi í Indónesíu. Þema hússins er óvenjulegt: Nasismi.

SoldatenKaffee eða Hermannakaffi var opnað í borginni Bandung á eyjunni Jövu árið 2011. Staðurinn er skírður eftir vinsælum samkomustað hermanna í Þýskalandi og París í síðari heimstyrjöldinni. Kaffihúsið er skreytt með gasgrímum og fánum með hakakrossinum á. Ótrúlegt þykir að lítið hafi farið fyrir umræðunni um kaffihúsið fyrr en nú.

Er kaffihúsið var opnað var enginn að hneykslast á því að þjónar og margir gestir klæddust nasistabúningum. Helförin er einfaldlega ekki vinsælt umræðuefni í Indónesíu en landið byggja aðallega múslímar. Samfélag gyðinga þar í landi telur aðeins um 20 manns.

Það var þó ekki fyrr en enska dagblaðið Jarkarta Globe fjallaði um SoldatenKaffee að margir hrukku í kút. Var borgarstjórinn m.a. hvattur til að ræða við eigendur kaffihússins.

„Við þurfum að spyrja hann hver raunverulegur tilgangur hússins er. En eitt er alveg á hreinu, Bandung-borg leyfir engum að hvetja til kynþáttafordóma,“ segir borgarstjórinn.

Eigandi og hönnuður kaffihússins er Henry Mulyana. Hann segir ekki tilganginn að vekja upp slæmar minningar um helförina en segir það ekki koma sér á óvart að hann sé nú úthrópaður skúrkur.

„Ég dýrka ekki Hitler,“ fullyrðir hann, „ég dýrka einfaldlega alla munina sem tengjast hermönnunum.“ Mulyana er kristinn og hefur gaman að því að leika sér með loftriffla. 

Safn riffla hans er til sýnis á kaffihúsinu en þar má einnig finna margvíslega hluti sem tengjast þýskum hermönnum, s.s. sjónauka og luktir. Flesta hlutina hefur hann keypt á netinu. Hann segir hluti með hakakrossinum á verðmætari en aðra.

Staðurinn er nokkuð vinsæll.

„Við búum í Indónesíu og Indónesar voru ekki píndir í helförinni, svo okkur er alveg sama,“ segir námuverkamaðurinn Arya Setya, á meðan hann borðar spaghettírétt á kaffihúsinu ásamt kærustunni sinni.

En nú þegar nasistakaffihúsið hefur spurst út eru gyðingar í öðrum heimshlutum æfir.

Simon Wiesenthal-stofnunin hefur haft samband við yfirvöld í Indónesíu vegna málsins. Rabbíninn Abraham Cooper í Los Angeles, segir gyðinga hneykslaða og fulla viðbjóði vegna kaffihússins.

„Við ætlumst til þess að til viðeigandi ráðstafana verði gripið og kaffihúsinu lokað,“ segir hann.

Samkvæmt indónesískum lögum er hægt að dæma hvern þann sem viðhefur hatur í garða annarra kynþátta í allt að fimm ára fangelsi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert