Bandaríski blaðamaðurinn Helen Thomas er látin, 92 ára að aldri. Thomas var þekktur stjórnmálaskýrandi og fréttaritari í Hvíta húsinu. Hún starfaði sem slíkur allt frá tíð Johns F. Kennedys til Baracks Obama.
Thomas er sögð hafa verið lengi veik en hún lést að heimili sínu í Washington í dag. Hún hefði orðið 92 ára í næsta mánuði.
Thomas átti fast sæti á fremsta bekk í blaðamannaherbergi Hvíta hússins. Hún lét forsetana oft finna fyrir því með beittum spurningum sínum.
Svo sérstök var hún í augum þeirra sem völdin höfðu í Hvíta húsinu að hún var eini blaðamaðurinn sem hafði fast sæti með nafninu sínu á í blaðamannaherberginu.
Obama sendi frá sér yfirlýsingu í dag vegna andláts hennar. „Helen var sannur frumkvöðull, hún braut blað í sögunni og braut niður múra fyrir kynslóðir kvenna í blaðamennsku sem á eftir fylgdu.“
Thomas hóf störf sem fréttaritari í Hvíta húsinu fyrir United Press International snemma á sjöunda áratugnum. Þá höfðu aðeins örfáar konur haslað sér völl í blaðamennsku í Washington.
Hún var dóttir innflytjenda frá Líbanon og hafði mikinn áhuga á málefnum Miðausturlanda. Þá var hún ötull talsmaður í réttindabaráttu Palestínu.
Hún var óvægin, hreinskilin og óttalaus en verð á árið 2010 er ummæli hennar um Ísrael urðu til þess að hún varð að segja af sér sem fréttaritari í Hvíta húsinu.
Hún hafði verið spurð í viðtali við vefsíðuna rabbilive.com hvað henni fyndist um Ísrael.
„Drullið ykkur út úr Palestínu,“ svaraði hún. Hún bætti svo við að gyðingar ættu að fara heim til sín, til Póllands og Þýskalands.
Hún baðst síðar afsökunar á ummælum sínum.