Katrín hertogaynja á sjúkrahús

Katrín hertogaynja af Cambridge var flutt á sjúkrahús með hríðar …
Katrín hertogaynja af Cambridge var flutt á sjúkrahús með hríðar snemma í morgun. AFP

Senn lýkur langri bið eftir nýjum erfingja bresku konungsfjölskyldunnar, því hríðir eru hafnar hjá Katrínu hertogaynju af Cambridge, eiginkonu Vilhjálms Bretaprins, samkvæmt yfirlýsingu frá Kensington höll sem send var út rétt í þessu. 

Katrínu og Vilhjálmi var ekið í bíl á St. Mary sjúkrahúsið í Paddington í London snemma í morgun. Þetta verður fyrsta barn ungu hjónanna og jafnframt þriðji erfinginn í erfðaröð bresku krúnunnar, óháð því hvers kyns það er.

Fjölmiðlamenn víðs vegar að úr heiminum hafa beðið dögum saman utan við St. Mary sjúkrahúsið, eftir því að fæðingin fari af stað. Opinberlega var aldrei gefið upp hvenær hin verðandi móðir væri sett, en vitað var fyrir víst að það yrði einhvern tíma um miðjan júlí. Katrín kom síðast fram opinberlega í júní. Vilhjálmur hefur verið við hlið hennar síðustu daga og mun taka sér tveggja vikna barneignaleyfi.

Næst þegar hjónin sjást opinberlega munu þau væntanlega birtast á tröppum sjúkrahússins með barnið í fanginu, að sögn BBC.

Þess má geta að breska blaðið Telegraph hefur komið fyrir vefmyndavél sem sýnir beint frá tröppum sjúkrahússins og geta þeir spenntustu því fylgst með á rauntíma þegar erfinginn verður „frumsýndur“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert