Konur eru skammaðar fyrir að ganga ekki með blæjur og teknar á beinið fyrir að sitja klofvega á mótorhjólum. Mannréttindahópar segja að íslömsku sharíalögin, sem eru útbreidd í Aceh-héraði í Indónesíu og framfylgt er af siðgæðislögreglunni, auki á kynjamisrétti og séu gríðarlega óréttlát.
Á hverjum degi ekur siðgæðislögreglan um svæðið. Lögreglumennirnir eru ekki í leit að þjófum heldur konum sem fela ekki hár sitt - enda gengur það gegn sharíalögunum sem eru í gildi í Aceh. Borgarstjórinn hefur sagt að konur eigi ekki að sitja klofvega þegar þær eru farþegar á mótorhjólum heldur í söðli. Að sitja klofvega segir hann kynferðislega ögrandi og ganga gegn íslömskum hefðum og gildum. „Ef konan situr klofvega ýtir hún viðkvæmum hluta líkama síns upp að þeim sem ekur hjólinu,“ segir borgarritarinn í samtali við AFP og leggur hendur á bringu sína til að gefa í skyn að hann eigi við brjóst kvenna. „Það er ekki í anda íslam.“
Enn hefur þetta þó ekki verið bundið í lög en siðgæðislögreglan hefur þó þegar hafið störf og stöðvar konur sem sitja klofvega á mótorhjólum.
Sharíalög hafa verið í gildi í Aceh frá árinu 2001. Héraðið fékk sérstaka undanþágu frá stjórnvöldum í Jakarta til að setja lögin á.