Hin norska Marte Deborah Dalelv var í morgun náðuð af emírnum í Dúbaí og fær að snúa aftur heim til Noregs. Hún var í síðustu viku dæmd í 16 mánaða fangelsi fyrir að stunda kynlíf utan hjónabands, en hún hefur verið í farbanni án vegabréfs síðan hún lagði fram kæru um nauðgun í mars. Norsk stjórnvöld beittu sér af krafti í máli hennar.
Ríkissaksóknari í Sameinuðu arabísku furstadæmunum boðaði Dalelv óvænt á fund til sín í morgun, kl. 8 að íslenskum tíma. Áður hafði utanríkisráðherra Noregs, Espen Barth Eide, sett sig í sambönd við stjórnvöld í Dúbaí og fordæmt fangelsisdóminn. Þá vöktu fjölmiðlar um allan heim athygli á málinu.
Norskir miðlar greina nú frá því að Dalelv hafi verið tilkynnt um náðunina á fundinum fyrir stundu og sé nú á leið út á flugvöll. Hún starfaði sem hönnuður í Katar og var á ferðalagi með vinnufélögum sínum í Dúbaí, en eftir nauðgunarkæruna var hún rekin úr vinnu.
„Ég vona að þetta mál verði lærdómsríkt dómsyfirvöldum víða um heim,“ sagði Eide á blaðamannafundi í Ósló í morgun. Hann bætti því við að norska utanríkisráðuneytið hefði lagt mikla vinnu í að leysa sem hraðast úr máli Dalelv síðan hún var handtekin í mars og verið í daglegum samskiptum við stjórnvöld í Sameinuðu arabísku furstadæmana.
„Mér þykir yfirvöld furstadæmana hafa sýnt okkar sýn á málið mikinn skilning og vil þakka forsætisráðherranum sérstaklega,“ sagði Eide, en það er forsætisráðherrann og emírinn Mohammed bin Rashid Al Maktoum sem náðar Dalelv persónulega.
Eide segir það hafa haft áhrif á lausn málsins hve mikla athygli það vakti um allan heim, en m.a. söfnuðust 70.000 undirskriftir við kröfu um að henni yrði sleppt. Það hafi sett þrýsting á Dúbaí, auk þess sem Norðmenn hafi lagt mikla áherslu á að Furstadæmin hafi skuldbundið sig til að virða mannréttindi.
„Mín upplifun er sú að Dúbaí hafi skynjað að þetta hafði neikvæð áhrif á ímynd Furstadæmanna,“ hefur Aftenposten eftir Eide.
Málið hefur haft keðjuverkandi áhrif í Noregi. M.a. hefur sú umræða kviknað hvort stjórnvöldum beri að vara konur við því að ferðast til landsins. Þá hefur Norski hótelháskólinn slitið tengsl við Emirates Academy of Hospitality Management í Dúbaí, en þangað hefur fjöldi starfsnema farið frá Noregi á ári hverju.